Skarkalagata

Á Skarkalagötu eru 26 börn á aldrinum 4-5 ára.  Mikil áhersla er lögð á sjálfstæði barnanna, sjálfsöryggi og framsögn. Starfsmenn hvetja börnin til þess að gera hlutina sjálf og aðstoða eftir þörfum.   

Yfir vetrartímann er deildinni skipt í tvo hópa þannig að skólahópurinn er inni fyrir hádegið meðan hinn fer út og svo öfugt.  Öll börnin fara svo saman út eftir kaffitímann ef veður leyfir.  Yfir sumartímann er þetta öllu frjálslegra og fara yfirleitt öll börnin saman út 2-3 sinnum á dag.

Hópastarf er 3-4 sinnum í viku, bæði fyrir og eftir hádegið. Í hópastarfinu, sem og hinu daglega starfi, höldum við áfram að byggja ofan á stærðfræðikunnáttu barnanna og  bætt er við formum eins og sexhyrning og tígli til viðbótar við hring, ferning, þríhyrning og rétthyrning sem börnin kynntust  á yngri deildum leikskólans. Unnið er með talnaskilning upp í 20 og  meira, allt eftir áhuga barnanna.    Myndlist, tónlist og hreyfing eiga einnig sinn sess í starfinu sem og útikennsla en þar kemur útisvæðið sem við eigum á Klambratúni til með að nýtast okkur vel. Einu sinni á dag fara börnin í val þar sem þau velja það viðfangsefni sem þau vilja.

Samvinna er meðal Háteigsskóla, Klambra, Stakkaborgar og Nóaborgar. Elstu börnin á leikskólunum fara í nokkrar heimsóknir á leikskólana til þess að kynnast börnunum sem þau verða með í Háteigsskóla. Þau fara svo öll saman í heimsókn í Háteigsskóla og hitta krakkana sem þar eru í 1. bekk. Þar fá þau að vera með í kennslustund, fara út að leika á skólalóðinni, syngja saman og margt fleira.  Þessi samvinna hefur gefist mjög vel og hafa kennarar fundið fyrir jákvæðum breytingum sem  leiða til enn betri skólabyrjunar eftir að þessi samvinna hófst.

Deildarstjóri Niuvis Sago Suceta