Leikskólastarf

Dagatal 2020 - 2021

2020


2021

Leikskólastarf

Í leikskóla á að leggja áherslu á skapandi starf og leik barnsins. Ekki er um beina kennslu að ræða sem stefnir að ákveðinni fræðilegri þekkingu. Leikskólafræði eru fremur þroskamiðuð en fagmiðuð, með áherslu á leik barna sem náms- og þroskaleið, uppgötvunarnám.

Í leikskóla skal rækta alhliða þroska barnsins sem felst m.a. í líkams- og hreyfiþroska, tilfinningaþroska, vitsmunaþroska, málþroska, félagsþroska og félagsvitund, fagurþroska og sköpunarhæfni, siðgæðisþroska og siðgæðisvitund. Í leikskóla ber að hlúa að öllum þessum þroskaþáttum, efla þá og örva samspil þeirra. Lífsleikni og námsgengi barnsins byggist á jafnvægi milli þessara þroskaþátta. Aðalnámskrá 1999.

Leikurinn

frjals-leikurSérstaða náms í leikskóla er sú viðurkenning á að börn á þessum aldri læri best í gegnum leik. Því er lögð mikil áhersla á að leikur barnanna fái notið sín í leikskólanum. Samskipti, virðing og samvinna eru hugtök sem börn tileinka sér í leiknum ásamt því að skiptast á og deila með öðrum. Börn tjá tilfinningar sínar í leik og yfirfæra reynslu sína í leikinn sem þau búa til sjálf. Reynt er að skipuleggja leikumhverfið á þann hátt að þar geti ríkt gleði, sköpun og vinátta. Áhersla er lögð á það að kennarinn sé ekki stjórnandi í leiknum heldur örvi börnin, sé þeim til stuðnings og taki þátt í leiknum á forsendum barnanna. Það má því með sanni segja að hver dagur í leikskólanum sé nám barnsins. Í frjálsum leik getur barnið eflt alhliða þroska sinn, þ.e. líkamlegan, tilfinngalegan, félagslegan, vitsmunalegan, siðgæðislegan og fagurfræðilegan.

Hópastarf

Í hópastarfi er unnið með stærðfræði gegnum leikinn.  Hópunum er aldursskipt og vinnur hver hópur verkefni sem hæfir þroska þeirra.
Hver hópur fer tvisvar sinnum í viku í hópastarf og er barnið í sama hópnum og með sama hópstjóra allan veturinn. 

staerd.1staerd.2staerd.3

Könnunarleikurinn

Könnunarleikurinn er leikaðferð sem notuð er á yngstu deild leikskólans. Hún felst í að börnin rannsaka og uppgötva á eigin spýtur. Leikefnin eru mest verðlausir hlutir eins og dósir, pappahólkar, tvinnakefli, steinar og skeljar en líka heimilishlutir eins og klemmur, hárrúllur, keðjur og gardínuhringir. Börnin fá ákveðið pláss þar sem búið er að koma fyrir leikefni, síðan fær barnið ró og næði til þess að kanna og rannsaka hlutina undir eftirliti starfsmanns. Könnunarleikurinn er notaður reglulega í hópastarfi yngstu barnanna. Frágangur og tiltekt er hluti af leiknum og þannig tengjum við saman orð og athafnir.

 konnunarleikur konnunarleikur2     

Alþjóðavika og Alþjóðadagur

Einu sinni á ári er haldin Alþjóðavika sem endar á Alþjóðadegi. Kjörorð vikunnar eru: ,,Allir í heiminum eiga að vera vinir eins og við á Nóaborg". Við kynnum okkur menningu þeirra landa sem tengjast börnunum hverju sinni og þá er Ísland ekki undanskilið. Við höfum m.a. sungið lög, hlustað á tónlist, lesið bækur, skoðað mismunandi letur, borðað mat, dansað, farið í skrúðgöngu um hverfið, horft á barnaefni og fleira. Allt eftir áhuga hverju sinni. En auðvitað leggjum við okkur fram við að sýna hvert öðru umhyggju og umburðarlyndi allt árið!