Stærðfræði

Leikskólinn tekur mið af Aðalnámskrá fyrir leikskóla en leggur sérstaka áherslu stærðfræðivinnu með börnunum þ.e. formskynjun, hugtaka- og talnaskilning. Hugmyndafræði stærðfræðivinnunnar byggist að hluta til á hugsmíðahyggju og er sótt í smiðju ýmissa fræðimanna.

"Maður verður að uppgötva hvað það er sem maður hefur gengið að sem gefnu og tileinka sér að taka eftir stærðfræðinni í hinu hversdagslega! Þá fyrst er hægt að örva hugsanir barnsins og vekja áhuga þess á stærðfræðilegum hugtökum og hugmyndum, þ.e.a.s. að gera stærðfræðina sýnilega barninu í heimi þess og í samhengi við aðstæður sem hafa merkingu í huga þess. Þetta snýst um að fást við það sem börnin eru upptekin af og hjálpa þeim að líta á það sem stærðfræði. Þannig öðlast þau aðgang að þeim hugtökum sem þarf til að geta beitt tungumálinu svo þau geti tekist á við dagleg verkefni á stærðfræðilegan hátt."
(Elisabet Doverborg & Ingrid Pramling Samuelsson)

Constance Kamii, Rheta De Vries og Lawrence Kohlberg eru þekkt fyrir hugsmíðahyggju (constructivism), sem er útfærsla þeirra og fleiri á kenningum Piagets um menntun yngri barna. Hugsmíðahyggjan byggir að því leyti á Piaget að hún telur það meginmarkmið að ýta undir formgerðarbreytingu í rökhugsun og stuðla þannig að því að barnið færist fyrr en ella frá einu vitþroskastigi til annars. Einnig er lögð höfuðáhersla á mikilvægi virkni barnsins í náms- og þróunarferli. Sótt er til hefðbundinna hugmynda um leikskólauppeldi að því er varðar efni, búnað og viðfangsefni, sem stuðla að virkni barnsins. Hins vegar eru kenningar Piaget taldar of takmarkaðar til að byggja megi á þeim einum í uppeldisstarfi. Með virkni sinni byggir barnið upp eigin hugmyndaheim. Það aðlagar nýja þekkingu að hugmyndum sínum um heiminn eða samhæfir hugmyndir sínar nýrri reynslu til að leysa úr þeirri togstreitu sem verður ef sú reynsla stangast á við hugmyndakerfi þess. Í þessu ferli þróast smátt og smátt hugmyndaheimur barnsins. "Röngum" hugmyndum er vikið til hliðar og um leið þróast rökhugsunin og barnið verður smám saman fært um að takast á við flóknari verkefni. Þegar unnið er með börnum er þess vegna mikilvægt að leggja sífellt fyrir efni sem ögrar hugmyndaheimi þeirra, er aðeins ofan við getu þeirra, og kallar þannig fram togstreitu og árekstra milli ríkjandi hugmynda þeirra og nýrrar reynslu.