Formskynjun

Markmiðið er að börnin kynnist algengustu  formunum og læri að þekkja þau. Á Fiðrildadeild  eru notuð þrjú form: hringur, ferningur og þríhyrningur. Á Fiskadeild bætist rétthyrningur við og á Fíladeild er síðan unnið með fleiri form t.d. sexhyrning og tígul. Notuð eru ýmis spil og leikir sem markvisst örva formskynjun barnanna. Dæmi um það eru minnisspil, bingó og ýmis samstæðuspil. Viðfangsefnin verða flóknari eftir því sem börnin eldast og má í því sambandi nefna að á yngstu deildinni eru börnin að para saman eins form á meðan börnin á þeirri elstu eru að sauma myndir sem þau sjálf teikna úr formum.

Talnaskilningur

Talnaskilningur örvast í daglegu starfi barnanna. Tölustafir eru hafðir aðgengilegir börnunum og eru víða hengdir upp. Á öllum deildunum fá börnin að leika sér með lausa tölustafi sem eru hafðir misstórir og miðast það við þroska barnanna. Spiluð eru teningaspil af ýmsum gerðum og farið í talnaleiki. Yngstu börnin telja líkamshluta á meðan þau elstu eru í búðarleik með verðmerktar vörur, talnagrind og peninga. Oft er boðið upp á ávexti í eftirmat og eru þeir tímar gjarnan notaðir til að örva börnin í talningu. Börnin eru þá spurð hve marga bita þau vilji og eru dæmi þess að hálft epli hafi verið skorið í 97 bita og þá töldu allir saman. Yngstu börnin biðja oftast um einn, tvo eða þrjá bita og sýna það þá með fingrunum en þau eldri velja oftast 10-20 bita.

Hugtakaskilningur

Lögð er áhersla á yfir- og undirhugtök. Hugtökin eru alltaf kynnt hlutlægt fyrir börnunum á ýmsan hátt í gegnum leik áður en það er unnið huglægt.